Færsluflokkur: Íþróttir

Challenge Roth 2013

Já þá er maður búinn að skrá sig í Járnkarl að ári. Ég ætla að fara aftur til ROTH og keppa þar. Þetta var svo gaman og ekki eins flókið og að fara til USA. En ég var að taka saman árangurinn í Florida vs ROTH og það er svona:

Hvar Sund T1 Hjól T2 Hlaup Samtals
Florida 2011 01:16:57 00:09:49 05:27:59 00:04:00 04:18:43 11:17:27
ROTH 2012 01:10:06 00:03:57 05:42:14 00:02:56 04:14:52 11:14:02
Mismunur 00:06:51 00:05:52 -00:14:13 00:01:04 00:03:51 00:03:25

Þannig að ég bætti mig í öllu nema hjóli en það var vegna mótvinds :-) En þá er bara að æfa betur og koma ferskur að ári og gera eitthvað alveg geðveikt.


Challenge ROTH

Þann 3. júlí  lagði ég af stað í ferðina til ROTH sem ég var búinn að bíða lengi eftir. Ég flaug með Icelandair  ásamt Vigni til Munchen en Einar Finnur fór með WOW til Stuttgart. Undirbúningur fyrir þessa þraut hafði gengið upp og ofan. Það sem olli mér mestum vandræðum voru veikindi sem ég uppgötvaði  í  maí en þá kom í ljós að ég hafði áunnið mér astma sem var þannig að ég var aðeins með 65% öndun  en eftir meðferð sem stendur enn yfir þá hafði ég náð 87% öndun í lok júní  og mér er sagt að ég fái ekki meiri bata. Þessi veikindi  voru þess valdandi að ég náði ekki að æfa hlaupin eins og ég vildi og  í raun hafa hlaupaæfingar frá áramótum engu skilað. Ég var alltaf móður og náði aldrei að hlaupa eins og maður á æfingum.  En maður leggur í svona ferðalag með þann undirbúning sem maður hefur og gerir síðan eins vel og maður getur. Ég var þó sáttur með sund- og hjólaundirbúning . Ég  vissi það fyrir nokkru að sundið var orðið mjög gott hjá mér, þó svo að ég hafi æft það einn síðustu vikurnar.

En við Vignir lentum í  Munchen um hádegi og tókum lest til  Nurnberg, að vísu tókum við ranga lest en hún fór líka með okkur á leiðarenda en með u.þ.b. 300 stoppum á leiðinni. Vignir leigði bíl í Nurnberg  og  við  ókum síðan til Allesberg til hjónanna sem leigðu okkur hús.  Það reyndist vera mega aðstaða íbúð með öllu og bílskúr til að geyma hjól og hjólatöskur. Einar Finnur mætti síðan stuttu á eftir okkur og þá voru allir komnir á staðinn og hægt að fara að skipuleggja næstu daga.


Þessa daga fram að keppni fóru í þetta venjulega , ná í gögnin, setja saman hjólin, prófa að hjóla, prófa að hlaupa og synda smá í Dóná til að sjá hvernig það væri. Það var gott að prófa að synda í skipaskurðinum Dóná , því þar sér maður ekkert því hún er ekki tær.

En mér þótti gott að synda þar og leiðin nokkuð bein. Þessa daga var ég  líka að fara í huganum yfir æfingatímabilið hjá mér  og skoða hvort ég hefði geta gert eitthvað betur.  Það var margt og fjölbreytt sem fór í gegnum kollinn á mér næstu daga og ég komst að því að ég hafi náð miklum árangri með sundið og var sáttur með undirbúninginn þar. Hjólið var ég líka sáttur með, það er ég ætlaði bara að halda mér við í því og það tókst. En eins  og áður kom fram á voru veikindi sem gerðu það að verkum að hlaupaæfingar skiluðu engu sem gæti gefið mér von um bætingar  þar.  Það sem hins vegar truflaði  mig töluvert voru allir þeir aðilar sem sáu sig knúna til að segja  mér að gera hlutina öðru vísi en ég var að gera. Það  er til ótrúlega margt fólk sem heldur að það viti allt betur en aðrir og lætur þær skoðanir óspart í ljós. Þannig að eftir þessar pælingar þá var ég þess fullviss, daginn fyrir keppni að ég  mundi ekki hafa getu í að klára keppnina, en ákvað samt að reyna mitt besta.


Keppnisdagurinn var glæsilegur  þrátt fyrir töluvert rok.  Við Einar Finnur mættum um  05:30 á staðinn og  hittum Vigni sem var að verða klár en hann átti að leggja af stað í fyrsta ráshóp, en við Einar Finnur  35 og 45 mín. seinna.  Allt gekk eins og venjulega að laga hjólið til, skila dóti í pokum fyrir T1 og  poki með eftir keppnisdóti.  Þá var náttúrlega farið á klósettið í  gallanum. Ég var orðinn svolítið spenntur því Vignir lagði af stað 45 mín. á undan mér og Einar Finnur 10 mín. á undan. 

En sundið hófst og ég var glaður að vera kominn af stað. En fljótlega fór ég að finna fyrir verkjum í ristlinum, svipuðum og ég var með þegar ég var veikastur af sáraristilbólgum (Colitis Ulcerosa) en ég ætlaði ekki að hætta í sundinu. Þegar ég var kominn að snúningi þá var ég orðinn verulega kvalinn og var að velta fyrir mér hvort ég gæti gubbað undir yfirborðinu þannig að enginn myndi sjá það  En það bjargaðist og ég hugsaði eftir snúning að núna væri ég að synda undan straumi, sem var ekki því  það var enginn straumur í þessum skurði.  Ég vissi líka að ég var með verkjalyf á hjólinu og þá yrði allt gott.  Sundið var svolítið strembið síðasta spölinn en í ROTH er syntur einn hringur og ég er ekki viss um að það  sé gott, betra að hafa tvo hringi þannig að maður viti þegar maður er hálfnaður. Ég kláraði sundið á 01:10:06 (bæting um 06:51) og bætti T1 tímann um 5 mín. þannig að eftir sund og T1 var ég kominn með tæpar 12 mín. í bætingu. Fór að hjólinu og pissaði þar í mig því ég var að spara tíma og tók verkjatöflur og setti á mig hjálminn á meðan.

Á hjólið fór ég  og var ánægður að hafa klárað sundið en verkirnir í ristlinum hættu  ekki og ég átti í miklum erfiðleikum með að liggja á areo-börunum því þá var ég að þrýsta á ristilinn og það reyndist mjög vont.  Ég tók sex verkjatöflur á hjólinu og í eitt sinn þá tókst mér að skera mig í vörina með álpappírnum á spjaldinu þannig að úr blæddi duglega. Á drykkjarstöð við 90 km spurði ég um klósett en mér var bara rétt gel og orkudrykkur en enginn kannast við að það væri klósett þar. Ég hjólaði því  í rúma 23 km á næstu stöð og þar fann ég WC og gat farið og kúkað. Það var dásamlegt og þá loks gat ég farið að hjóla eins og maður. Kláraði hjólið á 05:42:14 sem var aðeins frá mínu besta en fínt miðað við ristilbólgur og töluverðan vind á móti, það er ekki í ristlinum, heldur var bara rok á hjólaleiðinni.

Hlaupið byrjaði vel og það kom mér á óvart hvað mér leið dásamlega. Ég hljóp og fékk aldrei krampa en öndunin var ekki alveg eins og ég mundi vilja hafa hana þannig að ég hljóp aðeins hægar en ég ætlaði eða hélt að ég gæti. Ég kláraði hlaupið sem var einhæft og heitt á 4:14:52 sem er 14:53 frá draumnum mínum en samt 4 mín. bæting frá síðasta járnkarls maraþoni

Ég kláraði þessa þraut í ROTH á 11:14:02 sem er bæting uppá 03:25 frá því í Florida í  fyrra. Ég er sáttur með árangurinn, keppnina, umgjörðina og í raun nánast allt í sambandi við þessa þraut. Þó ætla ég næst að gera nokkra hluti öðruvísi en það er bara svona með ferðamáta, gistingu og mat síðustu vikuna fyrir keppni. Það var nefnilega pizza með jalaopeno sem olli því að ég var að drepast í ristlinum í upphafi keppninnar. 


Í lokin vil ég samt segja það að ljúka IRONMAN keppni er töluvert mál, það þarf að æfa sig og það ætti enginn að fara í það án þess að gera sér grein fyrir því að þetta er þrekraun fyrir alla, líka þá sem hafa æft sig vel. Því ættu allir að bera virðingu fyrir þessum keppnum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband